Hvernig á að þrífa parketið? Ekki ætla ég að hætta mér inn á þá braut að kenna fólki að skúra gólfin sín en þegar kemur að viðargólfum eru viss atriði sem ber að hafa í huga og varast.
Í gegnum tíðina hef ég unnið inni á mörgum heimilum og séð mörg gólf misvel með farin. Þau gólf sem líta best út eru jafnan þau gólf sem sjaldnast eru þrifin. Þetta kann að hljóma einkennilega en ef við skoðum hvernig verið er að þrífa þá er þetta ekki eins vitlaust og það hljómar.
Vatnsnotkun á viðargólf er varasöm. Ef viður er skoðaður í smásjá er viður eins og bunkt af sogrörum. Þannig myndast sogpípukraftur, þegar viður kemst í snertingu við vatn. Fólk ætti að forðast í lengstu lög að nota vatn á viðargólf. Að þurrmoppa gólf er besta aðferðin við dagleg þrif. Þar á ég við harða slétta fleti eins og flísar, parket og viðargólf almennt, flotuð gólf o.s.frv. Ef gólfið er mjög skítugt eftir veislu eða annars konar þá þarf að nota vatn. Ryksugan er auðvitað líka góð.
Þegar þarf að nota vatn er rétt að takmarka sápunotkun eins og unnt er, oft er nóg að nota eingöngu volgt vatn. Sápunotkun er aðallega mikil í dag vegna markaðslögmála. Ef mikil sápa bætist við vatnið sem sogast inn í viðinn geta myndast blettir við samskeyti sem líkjast fituröndum. Vindið þvegilinn eins vel og hægt er og aðgætið að hann sé rétt rúmlega rakur. Það er mjög mikilvægt að það leki ekki vatn úr honum.
Þarna liggur hundurinn grafinn. Þegar parket er framleitt eru borðin límd saman, yfirborðið slípað og þau lökkuð. Eftir það er úthringurinn á borðunum fræstur, útbúinn er samsetningartappi og nót. Þannig er úthringurinn óvarinn gegn vatnsinntöku. Sömu lögmál gilda um niðurlímt, gegnheilt parket, sem lakkað er á staðnum. Þar mætti ranglega ætla að lakkaður parketflöturinn sé þakinn heilli lakkfilmu sem hleypir engu í gegnum sig. Það sem hins vegar gerist eftir að slík gólf eru lökkuð er að viðurinn þenst út og dregur sig saman eftir aðgerðina. Eftir það sveiflast viðurinn eftir árstíðum og sprungur koma í lakkhúðina. Þetta sést ekki, í sumum tilfellum, nema í smásjá en þó misjafnt eftir viðartegundum. Tegundir eins og rauðeik, beyki, hlynur, askur, flestar ljósu viðartegundirnar, eru viðkvæmari fyrir þessum loftrakabreytingum og þessar lakksprungur sjást mjög greinilega.
Olíuborin gólf verða viðkvæmari fyrir vatnsnotkun þegar fram líða stundir. Það sem gerist með þannig gólf er að þau þorna með tímanum. Þeim þarf að viðhalda með olíu reglulega. Ef það er ekki gert þornar olían með tímanum og gólfið verður „svelt“ það er gólfið vantar olíu og í staðinn fyrir að fá olíu fær gólfið vatn á sig. Öldrun þessara gólfa verður hraðari eftir því sem oftar er skúrað. Það má best sjá á kvistum þessara gólfa hvort þau eru svelt eða ekki. Þú einfaldlega bleytir horn á tusku og strýkur yfir kvistinn. Ef hann dökknar er betra að huga að olíumeðhöndlun. Ef kvisturinn breytir ekki um lit ætti gólfið að vera í lagi. Þetta er þó ekki algilt og bendi ég fólki á að olíubera gólfin með ca 1-2 ára millibili, þó í samráði við fagmann.
Framleiðendur á olíum og lakki hafa fikrað sig áfram með framleiðslu á sápum, sem ætlaðar eru til viðhalds á viðargólfum. Sumir viðskiptavinir mínir eru hrifnir af þessum efnum og einhverjir finna minni mun á tegundum. Þegar kemur að olíubornum gólfum hef ég mælt með brúnsápu, ef fólk vill nota sápur. Þá bendi ég á þær fagverslanir sem sérhæfa sig í viðargólfum. Ef þú veist hvaðan efnið á gólfinu þínu er keypt er rétt að leita til viðkomandi umboðsaðila.
Parket-, lakk- og olíuframleiðendur hafa þróað efni til þrifa á gólfum.
Þannig hef ég séð gólf sem ég taldi vera orðin 10-15 ára gömul en voru kannski bara 5 ára. Ég hef líka séð 10-15 ára gólf sem litu út fyrir að vera nýleg. Þar er í flestum tilfellum hægt að þakka skynsömum konum og minna tuðandi, stilltum eiginmönnum, árangurinn.
Semsagt, varist mikið vatn og mikla sápunotkun, viðhaldið olíubornum gólfum, þurrmoppið eða ryksugið við dagleg þrif.
(Kvennablaðið, jan 2014)